Nám í jarðvirkjun við Tækniskólann

Nýliðun í faginu var eitt af áherslumálum stjórnar starfsárið 2018-2019. Með það fyrir augum skipaði stjórn starfshóp í október 2018 sem hafði það hlutverk að vinna að því að koma á laggirnar námi í jarðvirkjun, líkt og tíðkast víðast hvar í nágrannalöndum okkar. 

Starfshópinn skipuðu tveir stjórnarmenn félagsins ásamt tveimur starfsmönnum Samtaka iðnaðarins. Markmið verkefnisins var m.a. að stuðla að auknum gæðum í faginu og auka skilvirkni. Ennfremur er skortur á nýliðun í faginu áhyggjuefni og væri nám í jarðvinnu til þess fallið að gera faginu hærra undir höfði. Lögð var inn umsókn til Framfarasjóðs SI þar sem hugmyndin var reifuð og óskað eftir styrk til að vinna verkefninu brautargengi. Hlaut verkefnið hámarksstyrk að fjárhæð kr. 5.000.000.  

Ráðinn var verkefnastjóri, Ásdís Kristinsdóttir, til að halda utan um verkefnið, s.s. myndun námskrár, þróun raunfærnimats o.fl., í samráði við félagið. Þá var stofnaður stýrihópur sem skipaður var fulltrúum frá félaginu auk Tækniskólanum, SI og menntamálaráðuneytinu. Stýrihópurinn hélt til Svíþjóðar og Noregs í október 2019 að skoða sambærilega skóla þar.  Samkomulag um stofnun námsbrautarinnar var undirritað af samstarfsaðilum í nóvember 2019 og hófst námið að hausti 2021.

Tækniskólinn sinnir bæði bóklegri og verklegri kennslu en henni er sinnt í fullkomnum vinnuvélahermum sem samþykktir voru af fulltrúum Félags vinnuvélaeigenda. Með þeirri nálgun gefst nemum tækifæri á að hefja verklega kennslu frá fyrsta námsdegi. Aðildarfyrirtæki Félags vinnuvélaeigenda taka svo við starfsnemum til frekari þjálfunar þegar líður á nám hvers og eins nema. Með því fyrirkomulagi fá nemendur tækifæri til að undirbúa sig vel fyrir starfsnám í atvinnulífinu í öruggu og umhverfisvænu umhverfi.

Hér má lesa um námsbrautina.